Skúmhöttur

Eitt af nokkurm fallegum fjöllum í Skriðdal

Skúmhöttur teygir sig upp í 1.229 m hæð yfir sjávarmál. Mynd: Ágúst Guðmundsson.

Skúmhöttur merkir líklega eitthvað í líkingu við þokuhatt – skúmsheitið vísar til dimmu, sbr. hinn dökka fugl skúminn. Gunnar Gunnarsson skáld sagði í Árbók Ferðafélagsins 1944 að Skúmhöttur sé „oft krýndur skúma élja, svifþoku eða þolbetri skýja“. Raunar eru Skúmhettir að minnsta kosti þrír á Austurlandi. Sá sem hér er fjallað um er upp af Skriðdal, milli Egilsstaða og Breiðdals, en þó alllangt frá þjóðveginum.

Skúmhöttur er þungleitt og reisulegt fjall en grípur í augað vegna ljóss litar í efstu brúnum. Þar eru leifar af súrum hraunum sem skriðjöklar hafa fyrir löngu fjarlægt í dölum og dældum en skilið eftir í háþústunum eins og Skúmhetti og fleiri fjöllum. Til dæmis sést mjög þykk myndun úr súru bergi efst í bröttu og svipmiklu Hallbjarnarstaðafjallinu (1.146 m). Það snýr stafni fram að Skriðdal á móts við Þingmúla.

Handan við Skúmhött er stórt og skorið hálendi sem gaman er að skoða ofan af jafnháu fjalli og hann er. Enn fjær eru firðirnir og hafið. En til þess að komast í þau spor verður að ganga á Skúmhött neðan úr Skriðdal. Eftir að farið er fram hjá Sandfelli er komið að Þórisá sem fellur úr Ófærudal. Á aurum árinnar er rétt að hefja gönguna og halda sig sunnan við ána sem fellur að hluta í gili. Úr fjallinu gengur múli í sveig fram á landið milli Þórisár og annarrar ár, Eyrarteigsár úr Hallsteinsdal. Best er að ganga beint upp á múlann sem verður að hrygg er liggur með Ófærudal. Hryggnum er fylgt nokkurn veginn í suðaustur alla leið á háfjallið. Þar eru stakir klettarimar sem þarf að sneiða og vísara að vera sunnar á fjallinu en norðar vegna klettabeltis sem þar er. Útsýnið er stórfenglegt, jafnt til austurs sem vesturs og vissara að skoða kortið vel til þess að átta sig á fjallagrúanum.

Skúmhött ætti að láta eiga sig ef fjallið veður skýin eða ef veðurútlit gerist tvísýnt.