Kristínartindar upp af Skaftafellsheiðinni freista augljóslega allra fjallgöngumanna. Þeir blasa við neðan af vegi til Skaftafells og eru áberandi af flestum gönguleiðum í þjóðgarðinum. Ekki er vitað hver sú Kristín var sem fékk þetta fallega fjall heitið í höfuð sér. Eins og nafnið bendir til er fjallið ekki „einlyft“ – tindarnir eru tveir og sá lægri er 979 m en hinn miklu hærri, 1.126 m, og er sérkennilegur drangur utan í honum. Ef til vill er þar komin Kristín sjálf? Inn í fjallið skerst skál sem heitir Gemludalur.
Kristínartindar eru hluti af gosmyndunum sem eignaðar eru megineldstöð og minni eldstöðvum er voru þar sem nú er m.a. Morsárdalur og Kjós. Megineldstöðin var virk síðla á tertíer og snemma á íslöld. Í jarðlögum hennar skiptast á móberg, setlög og basaltlög. Inn af Kristínartindum er hvassbrýndur og tröllslegur hryggur sem rís hæst í Skarðatindi (1.385 m) og fyrir norðan hann taka við víðáttur Vatnajökuls. Skriðjöklar, í sama farvegi og Morsárjökull og Skaftafellsjökull, bara þykkari, hafa mótað tindaröðulinn á löngum tíma.
Fleiri en ein aðkomuleið er að Kristínartindum en trúlega fara flestir austustu leiðina, þ.e. um Austurbrekkur, hjá Sjónarnípu, upp Flár og inn Gemludal. Gaman er að horfa yfir Skaftafellsjökul á leiðinni. Stígar eru greinilegir og merktir og þegar tekið er til við að skera skriður upp úr Gemludal leikur aldrei vafi á leiðinni. Hún liggur svo bratt upp á öxl efri Kristínartinds og um klettaklungur og bratta stígahluta upp á hátindinn.
Þegar þess er gætt að álíka glæsilegt útsýni um lendur þjóðgarðsins kostar mun meiri og oft erfiðari fjallgjöngur á aðra tinda, má fullyrða að enginn sér eftir áreynslunni við að sigra Kristínartinda. Einna tilkomumest er að líta yfir Skarðatind, Morsárjökul, Miðfellstind, Þumal og fjallaklasann austan Skeiðarárjökuls. Öræfajökull er feikna tignarlegur ofan af fjallinu að sjá. Reikna má með því að róleg ganga á Kristínartinda sé þokkalegt dagsverk.