Hvannadalshnjúkur

Hann er hæsti tindur eldkeilunnar undir Öræfajökli og jafnframt hæsti tindur Íslands

Hvannadalshnjúkur teygir sig upp í 2.110 m hæð yfir sjávarmál. Mynd: Ágúst Guðmundsson.

Allir fjallamenn renna hýru auga til Hvannadalshnjúks. Hann er einkar virðulegur að sjá frá Skaftafelli og ekki nein ofraun öllum þjálfuðum göngumönnum, með aðstoð og leiðsögn ef þarf. Brýnt er samt að hafa í huga að fjallgangan er löng og ekki hættulaus og oft er mikill munur á veðri þar uppi og á láglendi. Tindurinn ætti að vera öllum fjallamönnum óskaviðfangsefni.

Hvannadalshnjúkur er súr gosmyndun á barmi litlu ísfylltu öskjunnar sem er í kolli mesta eldfjalls á Íslandi, Öræfajökuls. Tindurinn er jökli hulinn að mestu, um 200 metra hár yfir jökulsléttuna og í honum eru nokkrar áberandi jökulsprungur. Hann heitir eftir Hvannadal sem er upp af Svínafelli, undir Hvannadalshrygg. Svínafellsjökulsmegin eru mikil flug fram af Hvannadalshnjúki og voldugir hrunjöklar þar niðri.

Fjölfarnasta leiðin á Hvannadalshnjúk er svonefnd Sandfellsleið. Er þá farið upp frá eyðibýlinu að Sandfelli, meðfram eggjum þar, upp á jökul alllangt suðvestan og neðan við Rótarfjallshnjúk og síðan eftir 5 km langri sléttunni sem myndar koll Öræfajökuls. Þessari leið verður ekki lýst frekar heldur sagt frá heldur styttri og áhugaverðari leið, Virkisjökulsleið.

Farið er upp á Virkisjökul næst Svínafelli og inn eftir honum í átt að langri snjóbrekku næst norðvesturkrika jökulsins (vinstri jaðarinn). Leiðin liggur upp brekkuna og er þá komið á sprunginn jökulvanga utan í Hvannadalshrygg. Fram undan gnæfir Dyrhamar (1.911 m). Nú er um tvennt að velja. Fara má upp á Hvannadalshrygg og eftir honum vestur fyrir Dyrhamar. Þá koma menn að jaðarsprungu og 100-150 metra hárri jökulbrekku (um 45° meðalhalli). Hún er klifin upp á hrygg sem tengir Hvannadalshnjúk og Dyrhamar en hryggnum svo fylgt upp á hátindinn. Þessi leið er gráðuð 6. Hin leiðin, og heldur léttari, er farin með austurhlíðum Dyrhamars á hátindinn, gráðuð 5. Þegar líður á sumarið getur sprungumergðin við Dyrhamar þó hindrað för þessa leið.

Af Hvannadalshnjúki sést allt frá Mýrdalssandi austur á land og langt yfir Vatnajökul. Stundum hillir Norðurland í móðu en sjaldgæft er að fá þarna fullkomið skyggni. Nær er svipmesti jöklaheimur landsins fyrir fótum manna. Sama leið er farin niður og upp enda bæði öruggast og fljótast – ekki veitir af því lengri gerast vart dagsgöngur í íslenskum fjöllum, 10-15 klst. Skíði flýta auðvitað för.