Herðubreið

Hver á landi fegurst er?

Herðubreið teygir sig upp í 1.677 m hæð yfir sjávarmál. Mynd: Ágúst Guðmundsson.

Margir telja Herðubreið meðal fegurstu fjalla landsins, ef ekki það fegursta. Hún rís um 1.100 metra yfir umhverfið, jafnbrött á allar hliðar með trjónumyndaðan koll, skreyttan snjóskellum lengst af sumri. Herðubreið hefur verið höfð sem kennslubókardæmi um móbergsstapa sem taldir eru myndaðir í einu mjög öflugu gosi undir þykkum jökli. Er þá hægt að líta til nágrannans Kollóttudyngju (1.180 m) og hugsa sér að öll sú kvika hafi komið upp undir 1.000 metra þykkum jökli. Auðvitað getur jarðmyndun eins og Herðubreið orðið til í tveimur eða fleiri gosum á sama stað en altént er lítil dyngja ofan á móbergssökklinum sem er hömróttur efra en skriðrunninn allt í kring. Sunnan við fjallið er allhár móbergshryggur sem heitir Herðubreiðartögl. Herðubreið þótti ekki árennileg en hana klifu fyrstir Hans Reck og Sigurður Sumarliðason 1908.

Hægt er að aka að uppgöngustað leiðarinnar sem allir fara á fjallið. Er þá farið frá Herðubreiðarlindum áleiðis í Öskju (aðeins jeppafært!), að afleggjara til vesturs, svo um skarðið milli Taglanna og fjallsins og loks vestur fyrir það milli hrauns og hlíðar. Uppgangan er norðvestan í fjallinu, merkt með vörðum á stórum kletti og sést víða til stígs neðst í fjallinu. Mun áhugaverðara er að ganga en aka til þessa staðar. Er þá gengið yfir Lindahraunið í átt að fjallinu en svo þræddir melásar og flatlendi milli hrauns og hlíðar til vesturs og suðurs með fjallinu, 2-3 klukkustundir. Er greinilegt vik í hamrabeltinu að sjá, hátt fyrir ofan fjallsrætur sem eru í um 700 metra hæð.

Leiðin upp fjallið þræðir 30°-35° brattar skriður og smáhryggi upp undir klettabeltið. Halda ber hópinn til að minnka hættu af steinkasti.

Nú er um tvennt að velja. Ef mannbroddar og ísöxi eru höfð til taks geta styrkir göngumenn fetað sig eftir fönn (40°-45°) upp fyrir klettana – en oft er hættulegt! Mun öruggara og auðveldara er að skima eftir vörðu sem er á brúninni og fara þar upp klungur með stuðningi handa. Allur fyrri hluti uppgöngunnar tekur 2,5 – 3 klukkustundir. Rúmlega hálfrar klukkustundar gangur er síðan af öxl fjallsins inn eftir grýttu helluhrauni að brattri, gjallborinni, fannbarinni gígkeilu sem er hátindurinn.

Fara verður sömu leið til baka og halda hópinn til að koma í veg fyrir steinkast. Menn ættu að bíða með uppgöngu á Herðubreið í slæmu skyggni eða vondum veðrum en hitt er alveg víst að allt of fáir hafa gengið á hana. Útsýnið er eitt það tilkomumesta á landinu, allt frá Mið-Norðurlandi yfir á mitt Austurland. Vatnajökull sést endilangur, með stórvöxnum Kverkfjöllunum við miðbik norðurjaðarsins, og allt Ódáðahraun líkist helst útbreiddu landakorti – mikilleiki Öskju lætur meira að segja á sjá.