Súlur

Bæjarfjall Akureyringa

Súlur teygja sig upp í 1.213 m hæð yfir sjávarmál. Mynd: Ágúst Guðmundsson.

Af Súlum, bæjarfjalli Akureyringa, er sérlega fallegt útsýni og ganga á fjallið því vel tímans virði. Þaðan sést þó ekki mjög vel yfir Tröllaskagann, til þess eru t.d. Kerling og Tröllafjall of fyrirferðamikil í forgrunni. En útsýnið er fagurt yfir Eyjafjörð og þar fram úr, allt til Grímseyjar, og einnig yfir land norðvestur og austur af, meðal annars yfir í Mývatnssveit.

Súlur eru tvær. Ytrisúla er sú lægri (tæpir 1.200 m) en Syðrisúla sú hærri (1.213 m). Báðar eru þær úr súru gosbergi (rýólíti eða líparíti) sem tengist aftur eldgamalli og löngu kulnaðri megineldstöð á hálendinu þarna inn af. Þær eru hrygglaga, snotrir hnjúkar og sitja raunar á mun lengri hrygg, með Litlakrumma, Stórkrumma og Bónda (1.350 m) og Þríklökkum. Hryggur þessi og tindaröð nær að Kerlingu (1.536 m), hæsta fjalli Tröllaskagans. Tindarunan markar um leið austurjaðar Glerárdals og Lambárdals. Að hluta hömróttur stallur, Súlnastallur, varðar Ytrisúlu nokkuð ofan við miðja hlíð en báðir hnjúkarnir eru að mestu skriðurunnir þótt víða sjáist í dökka kletta eða dökkt basaltgrjót allra efst.

Hin hefðbundna gönguleið á Súlur er merkt um svonefndar Súlumýrar, langleiðina á fjallið. Oftast er þá ekið upp fyrir bæinn, í átt að gömlu öskuhaugunum, og gangan hafin rétt hjá svokölluðu Fálkafelli og farið að nokkru eftir vegaslóða þar.

Í þessari bók er þess hins vegar freistað að benda á aðra gönguleið á Súlur en þá hefðbundnu. Ágætt er nefnilega að ganga á fjallið úr austri, þ.e. innan úr hlíðum í Eyjafjarðarsveit, til dæmis frá Kristnesi, Teigi, Syðragili eða Ytragili. Í tveimur síðastnefndu tilvikunum er gengið upp með Gilsárgili uns það þrýtur. Þarna eru grónir hjallar í bland við mela og nokkur klettahöfuð gleðja augað. Stefnt er í slakkann á milli Súlnanna. Áhugaverð þyrping af hólum, sem líklega eru að hluta ættaðir úr grjótjökli, liggur undir hvilftinni og er tímans virði að skoða hana þótt það verki eitthvað úrleiðis. Þar er og fallegt nærumhverfi. Undir miðri hvilftinni blasir við uppmjó aurkeila og upp hana er gengið yfir nokkuð grýtt land uns komið er hálfa leið. Þá er um tvennt að velja – ganga beint upp í hvilftina og enda þar á miðjum hryggnum milli Súlnanna eða ganga upp í miðjar hlíðar Ytrisúlu og inn á Súlnastallinn sem blasir við í miðjum hlíðum hennar. Fyrri leiðin er nokkuð brött en jafnt hallandi og þarf mannbrodda ef snjór er einhver og hann harður. Uppi er hryggnum fylgt á aðra hvora Súluna eða báðar. Seinni leiðin beinir göngumanni í norður meðfram Ytrisúlu uns sér vel inn á suðurhlíðar og er þá strikið tekið upp fjallið eftir skriðuhrygg norðan við hamrabelti í kolli fjallsins.

Margir láta sér nægja að ganga á Ytrisúlu eina en hryggurinn á milli hennar og syðri hnjúksins er auðgenginn, þó mjór á köflum, og krókurinn bara skemmtilegur.