Snæfellsjökull

Hliðið að miðju jarðar

Snæfellsjökull teygir sig upp í 1.446 m hæð yfir sjávarmál. Mynd: Ágúst Guðmundsson.

Snæfellsjökull er sögusvið bókarinnar Leyndardómar Snæfellsjökuls eftir Jules Verne, en söguhetjan ferðast að miðju jarðarinnar frá jöklinum.

Auðvelt er að koma auga á Snæfellsjökul úr meira en 100 km fjarlægð á vestanverðu landinu. Hann er nærri fullkomin keila að sjá úr suðri og er líkt við fjöll eins og Fuji í Japan. Fjallið er kórónan í langri röð fjalla sem mynda hálendi Snæfellsness og aflsmiðja eldstöðvakerfis. Gígar á gossprungum þess sjást víða á láglendi umhverfis jökulinn og þykk hraun hafa þakið hlíðar fjallsins. Síðustu gosin í Snæfellsjökli urðu fyrir um 1.800 og 3.800 árum og telst hann því virkt eldfjall þótt ekki sýni hann nein óróleikamerki nú. Jökulhettan er um 11-12 ferkílómetrar og eru sumir hlutar hennar á meiri hraðferð en aðrir. Einn slíkur skriðjökull er Hyrningsjökull upp af Jökulhálsi sem lengdist nokkuð en hopar nú. Rétt vestan við hann eru Þríhyrningar, gjall- og kelpratindar sem standa upp úr jöklinum. Syðri hluti háfjallsins er krýndur þremur litlum tindum og sá í miðið hæstur, Miðþúfa. Geysistór skál með sprungnum jökulís myndar nyrðri hluta háfjallsins og vantar á hana norðurbarminn. Virðist svo sem upphaflegi norðurhluti fjallsins hafi sprungið eða fallið fram í einhverju síðari gosanna í fjallinu.

Þeir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson gengu í frægðarför á fjallið 1757 og höfðu meðal annars með sér svampa, vætta í ediki til að hamla móti áhrifum þunna loftsins sem þeir bjuggust við efst uppi – enda var fjallið talið hið hæsta á landinu. Nú fara hundruð manna eða þó fremur þúsundir á fjallið árlega enda kominn vegur yfir jökulháls, skíðalyfta og snjósleðaleiga í lendur Bárðar Snæfellsáss. Skemmtilegast er þó ávallt að ganga á fjallið. Hægt er að fara frá Dagverðará eða af Jökulhálsi neðarlega úr hlíðum og beina leið á tindinn. Í stað þess að aka of langt ágæta jeppaslóð á háhálsinn er gangan hafin rétt hjá neðri námum Jóns Loftssonar hf. og bílaslóðin gengin uns komið er á móts við mjög greinilegt hraunrif sem skerst upp í jökulin suðvestan við (vinstra megin við) Þríhyrninga. Þá er beygt yfir hraunið, riminn genginn upp í snjó og þaðan beint af augum rétt norðaustan (til hægri) við Miðþúfu, fram með Þríhyrningum. Þarna er sprungusvæði og eru því fleiri sprungur opnar sem nær dregur hausti. Við Miðþúfu er komið fram á gígbarminn og opnast þá upphafið útsýnið sem fær margan til að grípa andann á lofti. Einkum er gaman að sjá fram til norðurs, yfir báða risaflóana og eftir endilöngum fjallgarði nessins. Stundum er unnt að komast á Miðþúfu án klifurtækja en oftar þarf bæði mannbrodda og ísaxir til þess.

Í stað þess að fara sömu leið niður er unnt að fylgja nýjum sporum snjósleða og þeirra annarra sem fara upp frá búðum ferðaþjónustunnar uppi á Jökulhálsi og svo þaðan bílveginn til byggða.