Snæfell er hæsta fjall landsins utan jökla og eldfjallaættarsvipurinn leynir sér ekki. Fjallið er hæsti hluti lítillar megineldstöðvar. Að nokkru er það byggt úr efnum úr gosum undir ísaldarjökli en merki eru þar um eldgos ekki nema 10-20 þúsund ára gömul, segja sumir, en arðir jarðfræðingar hallast að því að yngsti hluti fjallsins sé um 150.000 ára. Á Snæfelli eru þrír skriðjöklar eða urðarjöklar, auk jökulfanna, og mestallur kollur fjallsins er jökulþakinn. Það er svipmikið og hátt að sjá úr fjarska en reynist þó ekki mjög erfitt uppgöngu – fær öllum sæmilega vönum göngumönnum. Menn hafa ekið vélsleðum á tindinn.
Sveinn Pálsson læknir og könnuður reyndi að ganga á fjallið við þriðja mann 1794 en komst ekki alla leið sakir illviðris. Það tókst hins vegar Guðmundi Snorrasyni frá Bessastaðagerði í Fljótsdal í ágúst 1877. Sveinn Jónsson á Egilsstöðum teymdi hest upp á hátind Snæfells árið 1925.
Stundum er farið á fjallið úr norðaustri, frá stað þar sem Snæfellsbúðir stóðu við Hafursfell meðan fyrri kannanir vegna virkjana fóru fram á þessum slóðum. Önnur gönguleið er á fjallið úr suðvestri. Þá er farið í suður frá Snæfellsskála og utan með dal sem skerst þar í fjallið. Hér verður breytt útaf þessari síðarnefndu leið. En hver sem leiðin er verður að muna að Snæfell er hátt og getur verið „kalt fjall“ og auðvelt er að rata þar í ógöngur í blindu, einkum ef menn lenda í skriðjöklunum og klettabeltunum sem eru há sums staðar.
Gengið er frá Snæfellsskála í austur beint upp brekkuna við hann, áleiðis á upptyppt undirfjall sem heitir Hamar (1.338 m). Í stað þess að ganga hæst upp á fjallið er farið sunnan við háfjallið (hægra megin) og sneitt eftir hjalla utan í því í um 1.100-1.150 m hæð uns komið er á lítt hallandi fannir sem eru við jaðar skriðjökuls ofan af fjallinu. Jökullinn klofnar um Hamar. Fram undan er suðvesturhryggurinn ofan úr fjallinu og er brattinn þar upp þeim mun minni sem stefnt er neðar á hann. Leiðin á snjó að hryggnum er alllöng og getur verið blaut og kröpuð í hlýju veðri. Uppi á breiðum hryggnum er auð, hörð skriða úr rýólíti („líparíti“). Fannir liggja ofarlega á hryggnum lengi sumars. Á ávölum hnjúk er beygt til hægri og stefnt á pall eða öxl neðan við kollóttan hátindinn. Forðast ber að nálgast klett sem stendur upp úr hjarninu sunnan í háfjallinu (sprunguhætta) en sjálfur kollurinn rís örlítið í norðaustur. Hér eru fjallamenn löngu komnir á snjó og þarf að troða hann alla leið á einn allra besta útsýnisstað á landinu. Þaðan sést frá Lónsöræfum, Austurlandi og jöklarisunum til nær alls norðurhluta landsins í einni sjónhendingu – að Vestfjörðum slepptum. Hinn máttugi Vatnajökull skyggir nokkuð á útsýnið til suðurs og vesturs en Snæfellið er svo hátt að vel sést um jökulhvelin allt til Öræfajökuls.