Mælifellshnjúkur

Af honum sést til 10 sýslna!

Mælifellshnjúkur teygir sig upp í 1.147 m hæð yfir sjávarmál. Mynd: Ágúst Guðmundsson.

Mælifellshnjúkur í Skagafirði er tvímælalaus það fjall, sem mest dregur að sér athygli, þegar ekið er veginn frá Varmahlíð í suðurátt. Blasir hann þá við fram undan á hægri hönd, gildur og fyrirferðamikill neðan til, sorfinn upp í topp. Meginhluti fjallsins er úr 8-9 milljón ára gömlum hraunlögum en efst er móbergskúfur frá fyrri hluta ísaldar. Þegar komið er suður undir kirkjustaðinn Mælifell, er beygt af aðalveginum ti hægri og ekinn vegur sem merktur er Efribyggð. Á vinstri hönd rennur Mælifellsá er kemur af samnefndum dal vestan Mælifellshnjúks. Áin rennur í grunnu gili en rétt neðan túns á samnefndum bæ er beygt til vinstri inn á rudda slóð sem er merkt Eyvindarstaðaheiði. Skömmu síðar er ekið yfir brú á Mælifellsá og upp bratta brekku sunnan hennar. Síðan liggur vegurinn inn með ánni, yfir Sellæk, sem kemur af Mjóadal, og inn Selflóa og er þá komið að vesturenda Mælifellshnjúks. Þar er bíllinn yfirgefinn.

Er nú haldið upp hnjúkinn norðvestanverðan meðfram girðingu er liggur þar hátt upp í hlíðina, en með henni er greið gönguleið. Þegar girðingunni sleppir er sveigt ögn til vinstri og stefnt upp háöxlina og er þá tálmunarlaus leið austur hrygg fjallsins í átt á tindinn. Rétt norðan við hátindinn lækkar kamburinn og tapast þá nokkur hæð. Riminn upp á hæsta tindinn er nokkuð hvass og bratt til beggja hliða.

Úr skarðinu á hátindinn þarf að fara með gát, sérstaklega ef snjór er enn í fjallinu. Mögulegt er einnig að aka lengra suður með hnjúknum, suður fyrir Moshól og ganga á tindinn sunnan frá.

Útsýni af þessu háa einstæða fjalli er frábært. Talið er að af Mælifellshnjúk sjáist í tíu sýslur og mun ekkert fjall við byggð á Norðurlandi hafa af öðru eins útsýni að státa nema Kerling við Eyjafjörð. Í norðri sér yfir meginhéraðið, út til fjarðarins, en þar hillir uppi eyjarnar Drangey og Málmey og eins Þórðarhöfða, en úr þessari átt sýnist hann eyja þó landfastur sé.

Austan héraðsins rísa Blöndhlíðarfjöllin eins og óslitinn fjallgarður. Lítið sér austur yfir þau en mörg þeirra eru yfir 1.200 m há og því aðeins hærri en Mælifellshnjúkur. Ágætlega sér inn í Norðurárdal og Egilsdal er gengur til suðausturs út úr þeim fyrrnefnda. Yfir Öxnadalsheiði gnæfir Kerling við Eyjafjörð. Lengra til hægri sést Laugafellshnjúkur fram af Eyjafirði og að baki honum í miklum fjarska Tungnafellsjökull og handan hans Bárðarbunga í Vatnajökli.

Til hægri breiðir Hofsjökull úr sér æði víðáttumikill og norður af honum Krókafell í jökulröndinni og Ásbjarnarfell á Hafsafrétt. Vestan Hofsjökuls sjást Kerlingarfjöll en nær og vestar ýmis fjöll á Kili svo sem Kjalfell og Rjúpnafell að ógleymdu Hrútfelli sem rís rétt austan Langjökuls. Jökullinn er alláberandi af hnjúknum. Norðan Langjökuls sést Krákur á Stórasandi, en þá tekur við Eiríksjökull í sömu stefnu, en nær sést Blöndulón og er þar fyri að líta sem haf. Lengra í burtu sést til Baulu, Snjófjalla og Tröllakirkju vestan Holtavörðuheiðar.

Í næsta nágrenni sjást svo fjöllin Reykjafjall og Kirkjuburst er liggja að Kiðaskarði að sunnan. Norðar sjást fjöllin vestan héraðs, Hellufell, Grísafell og Kaldbakur, einnig Staðaröxl og Molduxi. Yst við fjarðarmynnið að vestan sést svo víðáttumesta fjall sýslunnar, Tindastóll.