Kaldbakur

Hæsti tindur hina vestfirsku Alpa!

Kaldbakur teygir sig upp í 998 m hæð yfir sjávarmál. Mynd: Ágúst Guðmundsson.

Víða eru kalsaleg eða tröllsleg nöfn á íslenskum fjöllum: Hreggnasi, Hornklofi, Þursaborg, Ýmir og Kaldbakur. Einn Kaldbakurinn er afskaplega lögulegt og hátt fjall. Háburstin á vestfirsku fjöllunum sem á hans slóðum er farið að kalla vestfirsku Alpana. Þ.e. fjallabálkinn milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Hann er mjög gamall á íslenska vísu og allur þaulsorfinn af ísaldarjöklunum, bæði stórum og smáum. Engir jöklar eru þar nú en samt er Kaldbakur nægilega hvítur og kuldalegur lengi árs til að fá sitt skáldlega nafn. Kaldbakur er hæsta fjall á Vestfjörðum.

Líka er algengast að gengið sé á Kaldbak úr Fossdal við Arnarfjörð. Vafalítið eru fáir þar uppi ár hvert enda fjallið ekki í alfaraleið. Aka á framhjá Hranfseyri út með firði og fyrir Álftamýrarmúla. Þar opnast Fossdalur til hægri með samnefndri á. Yfir hana er farið og hefst gangan á vinstri bakka árinnar (horft inn dalinn). Ánni er fylgt eftir auðveldu göngulandi með nokkrum mýrarblettum. Á vinstri hönd eru hlíðar Stapadalsnúps (521 m) en Blesafjall með Seljahyrnu (802 m) er hinum megin dalsins.

Eftir því sem innar dregur eykst brattinn og Kaldbakur gnæfir yfir í framhaldi af Stapadalsnúpnum. Kaldbakurinn er þrístrendur píramídi, ekki afspyrnubrattur þó. Leiðin liggur í vægum sveig til austurs og þar fram undan er Kvennaskarð. Suðausturhryggur fjallsins nær úr skarðinu óslitinn upp á hátindinn. Í 400-450 m hæð er beygt skarplega til norðvesturs og lagt á lokahrygginn. Snemmsumars liggja þar enn fannir og þá eiga broddar og ísöxi að vera með í för. Hryggurinn er langur en ágætlega fær gangandi manni og hvergi óþægilega tæpur.

Ofan af fjallinu sést vítt og breitt yfir Vestfirði og er gaman að grúska í kortum til þess að átta sig á umhverfinu og eins að skima um hinn mikla Arnarfjörð. Í hálendinu milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar eru að minnsta kosti 20 – 30 tindar og reisuleg fjöll og álíka margir dalir skerast inn í þau. Þarna er kjörlendi útivistarfólks.

Í lokin skal þess getið að vegarslóði hefur verið alllengi í Fossdal, sunnan ár. Þar má komast úr botni dalsins yfir í Kirkjubólsdal í Dýrafirði. Ganga þeim megin á Kaldbak, alla leið frá Kirkjubóli utan við Þingeyri, er líka áhugaverð, ekki síður en sú leið sem hér hefur verið lýst.